þriðjudagur, júlí 31, 2007

Á faraldsfæti VI
Í gær fór ég í ferð með ferðafélaginu Vigfúsi. Þrír hressir Vigfúsar hittust við Vindbelg og var ætlunin að ganga á hann sem var jú gert. Hin venjubundna samlokustund var haldin og orku safnað á ný til þess að fara á næsta fjall sem var Hverfjall. Gekk ferðin á bæði fjöllin mjög vel og kom það mér verulega á óvart hve orkumikil ég var :) Eftir prílið fórum við svo í jarðböðin þar sem við svömluðum í góðan tíma og söfnuðum orku á ný :)
|

mánudagur, júlí 30, 2007

Á faraldsfæti V
Þá er það ferðalag helgarinnar en í það fór ég með Sólveigu systur. Að þessu sinni var feriðinni heitið í Húnavatnssýslurnar en það er sá hluti af landinu sem maður gefur sér sjaldan tíma í að skoða þó að maður sé þar á ferð því að þá er maður á hraðferð til eða frá Reykjavík. Við lögðum af stað eftir vinnu hjá Sólveigu á föstudagskvöldið.

Við keyrum yfir Öxnadalsheiði og í gegnum Varmahlíð en stoppuðum ekki fyrr en við Víðimýrarkirkju sem er torfkirkja, það var ekki opið inn í krikjuna en við dáðumst bara að henni að utan og kíkkuðum á glugga. Einnig dáðumst við af kettlingum sem þarna voru, þeir voru sko algjörir loðboltar. Næsta stopp okkar var Skagaströnd þar sem við gistum um nóttina. Þar er alveg frábært tjaldsvæði, góð aðstaða og það sem meira er, það er frítt að gista þar :)

Eftir að hafa pakkað niður tjaldinu fórum við út á skaga eða út að Kálfshamarsvík, þar eru minjar um verstöð sem var þar áður, húsgrunnar og einnig torfveggir. Þarna var viti sem við gengum út að og skoðuðum einnig fuglalífið. Fórum því næst á Blönduós og út í Hrútey sem stendur í miðri Blöndu. Því næst var vatnsdalurinn keyrður og stoppað hjá Kattarauga þar sem tjörn með tveimur fljótandi eyjum í sem færast til með vindum. Næst fórum við í Þingeyrarkirkju sem er mjög falleg, hún er hlaðin út grjóti og eru veggirnir 95 cm breiðir, kirkjuvörðurinn hafði mjög gaman af því að segja frá og vorum við í kirkjunni í allavega hálftíma. Þá fórum við í Víðidalinn þar sem við stoppuðum í kaffi hjá mömmu og pabba sem voru búin að tjalda þar. Við fórum því næst í Kolugljúfur sem er mjög stórfenglegt og löbbuðum þar aðeins um svæðið. Keyrðum svo að borgarvirki og gengum upp í það og því næst að Hvítserk sem við gengum út að og sáum þar í fjörunni dauðan sel. Keyrðum svo fyrir vatsnesið og stoppuðum á Illugastöðum þar sem við gengum út að fjöru og horfum út á sker þar sem fullt var af selum sem léku listir sínar fyrir okkur auk þess sem sólin var að hverfa bakvið vestfirðina og því var himininn mjög fallegur. Keyrðum næst í gegnum Hvammstanga en nenntum ekki að tjalda þar því að það var ball í bænum og því mátti búast við einhverjum látum. Gistum því á Laugabakka í Miðfirði.

Tjaldstæðið á Laugarbakka er ágætt, þar er innifalið í gjaldinu að fara í sturtu og heitan pott allt fyrir 600 kr :) Því skelltum við okkur í pottinn um morguninn þegar við vöknuðum og steiktumst létt í sólinni. Það er þó einn galli á þessu hann er sá að klefarnir eru frekar sóðalegir. Tókum saman tjaldið og fórum á Selasetrið á Hvammstanga og einnig á Verslunarminjasafnið sem er frítt inn á. Stoppuðum svo á Gauksmýri sem er við þjóðveg 1 en þar er endurheimt votlendi og er búið að koma upp fulgaskoðunaraðstöðu þar með sjónauka og fuglabókum. Mjög skemmtilegt að koma þarna og aðstaðan öll til fyrirmyndar. Á leiðinni heim til Akureyrar keyrðum við meðfram Svínavatni og upp að Blönduvirkjun þar em er opið hús eins og í flestum virkjunum. Við fórum þarna inn í gestastofu þar sem virkjunin er útskýrð en einnig voru þar tvær listasýningar. Ég hef það stundum á tilfinningunni að Landsvirkjun hafi eitthvað að fela því að strákurinn sem tók á móti okkur vék ekki frá okkur og var alltaf í um 2 metra fjarlægð frá okkur. Það gerði það reyndar að verkum að mðaur hálf stressast upp og nýtur þess ekki að skoða myndirnar né að hægt sé að spjalla saman um verkin þar sem það stendur alltaf einhver yfir manni. :( Þetta var síðasti viðkomustaður okkar og ókum við því sem leið lá heim til Akureyrar.
|

föstudagur, júlí 27, 2007

Á faraldsfæti IV
Þessi vika er búin að vera með rólegasta móti hjá mér, fór í lautarferð með fjölskyldunni, við pössuðum svo 2 ára orkumikinn frænda, fór í Mývatnssveit og svo í 2 ára afmæli orkumikla frændans sem var haldið á Laugum. Núna eftir nokkra tíma er ég svo að leggja upp í ferðalag um Húnavatnssýslurnar með Sólveigu og verð þar yfir helgina. Vona bara að sólin sjái sér fært að skína aðeins á okkur og einnig að við sleppum við rigningu en ef hún kemur þarf bara að takast á við hana eins og allt annað :)

  • Fórum frá Akureyri eftir að Sólveig var búin að vinna á sunnudaginn og lá leið okkar í Þorvaldsdal sem má segja að gangi upp frá Árskógssandi. Þó að þungskýjað væri og mikill raki í loftinu og ekkert of hlýtt snöruðum við fram grillinu, grilluðum kjöt og pylsur, dekkuðum borð og rifum svo í okkur eins og vel er við hæfi þegar úti er borðað. Við dekkuðum borðið á miðjum vegi (eða slóða) þar sem við vissum að umferð væri ekki mikil. Þetta var gert til þess að þeir sem væru illa skóaðir (allir nema ég) þyrftu ekki að blotna meira í fæturnar en það sem orðið var. Á leiðinni niður úr dalnum sáum við vel af aðalbláberjum og tókum við aðeins í bolla til þess að færa ömmu berjasjúklingi og sýna henni hve þroskuð berin eru orðin.
  • Næsta ferðalag er kannski ekki jafn "fancy" og hin sem ég hef farið í. Í gær fórum við mamma upp í Mývatnssveit, ástæðan fyrir förinni þangað var að ég fór til þess að ná mér í kennslubækur sem ég þarf að fara að skoða fyrir næsta vetur, um að gera að kíkja á þetta með smá fyrirvara. Í þessari ferð fórum við einnig i 2 ára afmæli frænda míns en haldið var upp á það hjá ömmu og afa á Laugum. Þetta var mjög hressandi afmæli, veitingar til fyrirmyndar og stemmingin góð :)
|

þriðjudagur, júlí 24, 2007

Á faraldsfæti III
Hér verður sagt frá ferð minni á vestfirði

Dagur 1
Miðvikudagurinn 11 júlí
Er að vinna fyrripartinn og legg því ekki af stað fyrr en um fimm leitið. Ek sem leið liggur í gegnum húnavatnssýslurnar og kem við á Borðeyri og held svo áfram á Hólmavík þar sem áætlað er að gista um nóttina.

Dagur 2
Fimmtudagurinn 12 júlí
Á Hólmavík skelli ég mér í sund og svo á galdrasafnið áður en að ég held ferð minni áfram, stefnan þennan daginn er að fara norður á strandir. Ég fór yfir Bjarnafjarðarháls og kom niður í Bjarnafjörð, þar stoppaði ég aðeins, fór í kotbú kukklarans sem er hluti af galdrasýningunni á Ströndum. Þar er einnig gvendarbrunnur sem er heit uppspretta sem var vígð af einhverjum biskup, minnir að það hafi verið Guðmundur góði en ég nenni ekki að fletta því upp til að athuga það. Fékk mér einnig gönguferð upp að fossi einum þarna sem er mjög fallegur. Næsti viðkomustaður var Djúpavík í Reykjarfirði, þetta fannst mér mjög spes staður, allt í einu poppaði upp byggð þarna í óbyggðunum. Gömul verksmiðjuhús sem hafa þjónað sínum tilgangi á uppgangstíma en þegar síldin fór var lítil not fyrir þau, íbúðarhúsin þarna voru þó í góðu ásigkomulagi og virðist vel við haldið þann tíma sem byggð er þarna á árinu. Gjögur var næst og svo sveitin í Trékyllisvíkinni og í Norðurfirði. sá ég sundlaugina þarna sem er niðri í fjöru og einnig handverkshúsið Kört þar sem ég spjallaði við krakka og komst að því að það eru einungis 2 börn í skólanum þarna. Einnig fór ég í Ingólfsfjörð en þar er verksmiðja sem nú er yfirgefin nema hvað kríur halda tryggð við hana. Ók ég svo sem leið lá til baka Strandirnar og gisti á Drangsnesi um nóttina þar sem ég nýtti mér heita potta niðri í fjöru til þess að ná í mig góðum hita fyrir nóttina í tjaldinu. Strandirnar eru mjög fallegar og stórbrotnar, þetta er staður sem ég væri til í að gefa mér meiri tíma í að skoða.

Dagur 3
Föstudagurinn 13 júlí
Fór frá Drangsnesi, yfir Steingrímsfjarðarheiði og var þá komin í Ísafjarðardjúpið, fór langadalsströnd og kom í Kaldalón þar sem vel sést að Drangajökli, þaðan er um klukkutíma gönguferð upp að jöklinum, ég gekk eins langt og ég komst en það var á sem stoppaði mig, þar sem ég var ein á ferð þá ákvað ég að vera ekkert að fara að vaða yfir hana enda veit maður aldrei hvað getur gerst. Það var því betra að vera skynsamur og sleppa því að fara alveg upp að jöklinum og gera það þá bara seinna þegar maður er á ferð með einhverjum. Í Kaldalóni er að finna minnismerki um Sigvalda Kaldalóns tónskáld sem var læknir á svæðinu og tók sér ættanafn eftir lóninu því hann heillaðist af náttúrufegurð þess. Fór ég svo út í Unaðdsdal en þar er kirkja niðri í fjörunni, mikið lengra komst ég ekki þar sem þar var einkavegur en ég sá út í Æðey en þar er rannsóknarstöð fyrir norðurljós. Ók ég svo til baka og hélt áfram á för minni til Ísafjarðar. Kom við á Reykjarnesi þar sem er útisundlaug og hefur verið það í yfir 100 ár skildist mér. Stoppaði svo aðeins í Vatnsfirði þar sem fornleifauppgröftur er í fullum gangi. Keyrði svo inn og út firði, stoppaði og skoðaði útsýnið og naut þess að vera á ferðalagi. Stoppaði aðeins í Súðavík, þar finnst mér mjög merkilegt að með samhentu átaki hafi bæjarstæðið verið flutt til þess að hægt sé að búa þar áfram eftir snjóflóðið sem féll þar. Kom svo á Ísafjörð og fór heim til Siggu þar sem ég gisti næstu 3 næturnar. Fór með Siggu í heimsókn til vinkonu hennar og var dvalið þar fram eftir kvöldi.

Dagur 4
Laugardagurinn 14 júlí
Um morguninn var kíkkað í bæinn á Ísafirði og svo var haldið út í Bolungavík og keyrt í gegnum Hnífsdal. Stæstur hluti af deiginum fór þó í ferð út í Vigur með Siggu og Heiðu systur hennar, en frá Ísafirði er um hálftíma sigling þangað. Í Vigur er meðal annars eina vindmyllan á landinu og svo stundar fjölskyldan sem þar býr æðarbúskap. Með okkur í för var víst heimsfræg kona en þar sem ég þekki ekki heimsfrægt fólk þá er ég ekkert að pæla í þannig hlutum. Ég frétti það frá Siggu að Margit Sandemo sem er höfundur Ísfólksins hafi verið með í för, í mínum huga var hún bara gamla krúttlega konan sem var með okkur í ferðinni, því sannarlega var hún krúttleg. Þegar við vorum komnar í land aftur var rúntað um Ísafjörð ásamt því að við tókum rúnt á Suðureyri. Um kvöldið skelltum við okkur svo í partý og svo á ball með Siggu Beinteins og hljómsveit í Súðavík sem var mikið fjör.

Dagur 5
Sunnudagurinn 15 júlí
Þessi dagur var letidagur, sólin var nýtt, farið í heimsókn til vina Siggu, tekin smá rúntur á Þingeyri, borðaður grillmatur með fjölskyldunni hennar Siggu og fórum svo upp á Bolafjall sem er hjá Bolungarvík og fórum niður í Skálavík. Það var æðislegt útsýni á Bolafjalli og gott ef við sáum ekki bara alla leið til Grænlands.

Dagur 6
Mánudagurinn 16 júlí
Þennan dag lá leið mín frá Ísafirði þar sem ég var búin að hafa það svo gott hjá fjölskyldunni hennar Siggu. Fór á Flateyri, keyrði yfir í Dýrafjörð þar sem ég fór út að Núpi og í garðinn Skrúð sem er mjög fallegur. Fór út að Hraunskirkju í Dýrafirði og svo upp á Sandafell. Fór því næst í Arnarfjörð þar sem ég heimsótti Jón Sigurðson á Hrafnseyri, hann var svo nýmóðins að hann var ekki með hund á hlaðinu heldur var grís hlaupandi þarna um allt :) Gisti svo undir fossinum Dynjanda um nóttina en um kvöldið labbaði ég upp að honum.

Dagur 7
Þriðjudagurinn 17 júlí
Frá Dynjanda lá leiðin á Bíldudal og þaðan út í Selárdal þar sem ég heilsaði upp á Gísla á Uppsölum, fór inn í húsið þar sem hann bjó og gekk svo að fjárhúsunum hans sem eru í talsverðri fjarlægð frá íbúðarhúsinu. Ég ákvað einmitt þar að ég yrði að horfa á styklur með Ómari Ragnarssyni þar sem hann heimsækir Gísla og hef ég þegar gert það. Frá Uppsölum fer ég niður að sjó þar sem byggingar og listaverk Samúels Jónssonar, listamannsins með barnshjartað, standa. Þar er ein af tveimur kirkjum í dalnum en hann reysti sína eigin kirkju undir altaristöflu sem hann hafði málað og skorið út. Altaristafla þessi var ætluð sem gjöf handa kirkjunni í Selárdal en henni var hafnað þar sem í henni var fínasta altaristafla. Næst var Tálknafjörður þar sem ég skellti mér í sund og svo Patreksfjörður. Þaðan lá leið mín á Rauðasand þar sem ég gekk berfætt um sandinn og óð í sjónum :) Þaðan fór ég svo á Látrabjarg og dáðist af fuglalífinu þar sem og ég naut þess að vera á Bjargtanga sem er vestasti oddi landsins. Um nóttina gisti ég svo á tjaldsvæði sem er rétt hjá Látrabjargi. Staðurinn heitir Brunnar og þar var áður mikil verstöð og sjást ummerki um hana.

Dagur 8
Miðvikudagurinn 18 júlí
Fór að minnismerki um björgunarafrekið á Látrabjargi og svo niður í Breiðuvík þar sem áður var vistheimili fyrir drengi en nú er rekin þar ferðaþjónusta. Því næst fór ég að Hnjóti á safnið þar of það var mjög skemmtilegt, fékk leiðsögn um safnið og heyrði þá margar skemmtilegar sögur, sá einnig muni frá heimili Gísla frá Uppsölum, frá bjögunarafrekinu á Látrabjargi og svo er þarna flugminjasafn. Fór næst í Flókalund þar sem ég fór í náttúrulegan heitapott við sjóinn og svo keyrði ég sem leið lá Barðaströndina. Kom við á Reykjanesi og fór í Staðarkirkju og hitti þar tvo heimalinga á hlaðinu. Keyrði því næst á Búðardal og svo Laxárdalsheiðina og svo heim.


|

sunnudagur, júlí 22, 2007

Á faraldsfæti II

Hér er framhald af því sem ég hef gert í sumar
  • Fór á byggðasafnið Hvoll á Dalvík, sá þar ýmislegt, meðal annars herbergi tileinkuð bæði Kristjáni Eldjárn og Jóhanni risa.
  • Fór upp að Hraunsvatni með ferðafélaginu Vigfúsi.
  • Fór í hvalaskoðun frá Húsavík með ferðafélaginu Vigfúsi, tekið skal fram að við sáum einn hnúfubak í ferðinni en það er betra en ekki neitt.
  • Fór í lautaferð með mömmu í Háfnefsstaðaskóg í Svarfaðardal
  • Fór á safnadaginn með mömmu og pabba, fórum á flugsafnið sem ég hef aldrei farið á áður og svo fórum við á minjasafnið sem ég hef komið nokkuð oft á áður.
Væntanlegt er inn á næstunni á faraldsfæti III en þar verður sagt frá ferð minni á Vestfirði :)
|

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri, Iceland

Sænsk tónlist vikunnar
20-26 september - Nic & the family
27-3 september - Raymond & Maria
4-10 október - Gyllene tider
11-17 október - Roxette
18-24 október - Alcazar
25-31 október - E-Type
1-7 nóvember - Da Buzz
8-14 nóvember - Dr Alban
15-21 nóvember - The Cardigans
22-28 nóvember - Günther and the Sunshine Girls
29-5 desember - A*Teens
6-12 desember - Marit Bergman
13-19 desember - Lena Philipsson
20-26 desember - Carola
27- desember - ABBA

Powered by Blogger